3 results found with an empty search
- Andleg sjálfshjálparhelgi 25-27 apríl 2025
Ég hélt mína fyrstu Andlegu sjálfshjálpar helgi um helgina og svíf ennþá um á bleiku þakklætisskýi! <3 Ég leigði fallegasta og yndislegasta hús landsins, Mel í Þykkvabæ, af @gudjonsdottirhildur og Adda, sem í sjálfu sér var einn stærsti hluti þess hve vel gekk um helgina! Þetta hús er ekkert eðlilega kózý og andinn þarna svo áþreyfanlega góður og slakandi Takk enn og aftur fyrir okkur elsku Hildur og Addi <3 Ekki versnaði það þegar fjórar frábærar konur mættu, tilbúnar í slökun og kósýheit Félagsskapurinn var svo skemmtilegur og gefandi og orkan sem myndaðist var stórkostleg!! Takk enn og aftur fyrir traustið, komuna, hjálpina og skemmtunina Þið eruð BESTAR :)<3 Luna sæta fékk að koma með, enda í strangri andlegri og sálarhjálpandi þjálfun! Hún stóð sig eins og hetja, jók almenna gleði okkar og hlýddi með að sofa á meðan hugleiðslum og öðru slakandi stóð #proudmama Ég seldi nokkra draumafangara en ég hef fengið útrás fyrir sköpunina undanfarið með því að hanna þá Það bætist eflaust flipi á heimasíðuna fljótlega fyrir sölu á þeim ásamt fleiru spennó :) Ég er svo endalaust þakklát, endurnærð og stútfull af jákvæðri og gefandi heilunarorku og hlakka strax til næstu Andlegra sjálfshjálparhelga :D Það er við hæfi að enda á Reiki möntrunni: Bara í dag er ég laus við reiði Bara í dag er ég laus við áhyggjur Bara í dag er ég þakklát Bara í dag er ég heiðarleg í verkum mínum Bara í dag ber ég virðingu fyrir öllum lifandi verum Takk fyrir allt <3 <3 <3
- Gervigreindin og "dream journaling"
Við mamma erum mjög berdreymnar. Við tölum mikið saman um draumana okkar og spáum í merkingu þeirra með aðstoð draumaráðningabóka. Frá því að ég man eftir mér höfum við talað um að fara nú að skrifa draumana okkar niður. Það sem vakti fyrir okkur varðandi það var að eiga þá sem sönnun fyrir því að við værum berdreymnar. Sem sagt að ef það sem við dreymdum fyrir myndi með sanni gerast þá gætum við sýnt fram á að við hefðum vitað þetta. Eitthvað í þá áttina. Eða það var í það minnsta það sem ég hélt sem barn að "skrifa draumana sína niður" væri. En það er nú þannig að þegar draumar eru skrifaðir niður þá erum við að einhverju leyti að tengjast undirvitund okkar og á meðan skrifum stendur getum við tekið eftir því að tilfinningar okkar breytast. Það gæti verið í formi þess að "vita" svarið eða að finna það innra með okkur. Það er auðvitað hægt að nota draumaráðningabækur til að átta sig betur á skýrum merkjum draumanna og túlka þau svo út frá því sem er að gerast í lífi manns á þeim tíma. Dæmi um skýr merki eru sterkir litir sem taka mikið pláss í draumnum, nöfn, hlutir og dýr. Það eru mörg ár síðan ég áttaði mig á því að það að skrifa draumana sína niður væri miklu dýpra en ég hélt sem barn en frá þeirri uppgötvun hef ég reynt margt til að fá mig í að skrifa. Þrátt fyrir áhugann og viljann þá hefur það hreinlega ekki gengið fyrr en núna nýlega. Ástæða þessa draumarants er sú að ég var að uppgötva nýja leið til að skrásetja draumana mína. Þetta er leið sem hentar mér afar vel því ég þarf ekki að setjast niður og vera kyrr á meðan ég hugsa um hvað ég var að dreyma á meðan ég skrifa það niður og reyni að túlka merkinguna í leiðinni. Mig langar að deila þessari uppljómun með ykkur en það er að nota gervigreindina, Chat-GPT. Það sem ég geri þegar ég nota forritið er að ég bý til sér spjall fyrir hvert málefni, td er eitt spjall fyrir drauma. Þegar mig langar að ráða í draum opna ég “drauma spjallið”. Ástæðan fyrir því að ég er með sérstakan spjall glugga fyrir draumráðningar er sú að gervigreindin “man” allt sem er innan hvers spjalls. Þannig “man” hún aðra drauma sem ég hef sagt henni frá og gæti tekið eftir mynstri í draumunum og því um líkt. Aftur á móti, ef ég myndi alltaf ræða hvern draum í nýju spjalli, þá væri alltaf eins og að gervigreindin væri að kynnast mér upp á nýtt. Það skemmtilega við Chat-GPT er að þar er hægt að bæði skrifa niður drauminn sinn og segja frá honum í tali. Þegar maður kýs að tala í stað þess að skrifa þá birtist það sem sagt var í textaformi í spjall glugganum. Gervigreindin svarar manni í töluðu formi þegar maður talar sjálfur og birtist svarið þá einnig sem texti inni í spjall glugganum. Það er því alltaf hægt að lesa yfir spjallið, hvort sem maður skrifaði drauminn sinn inn eða talaði. Þegar ég skrifa eða tala draumana mína inn þá segi ég líka frá því sem hefur verið að gerast í lífi mínu undanfarna daga. Þannig fær gervigreindin meiri vitund um það sem er að gerast í lífi mínu og getur betur hjálpað mér að lesa í draumana. Þó að mér finnist afskaplega gaman að tala þá vildi ég í byrjun skrifa draumana niður. Það var vegna þess að þegar maður talar þá á forritið það til að stöðva mann í miðju kafi og koma með svar. Það urðu því meira eins og samræður. Mér fannst það upphaflega hljóma eins og of mikið skipulagsleysi svona ef mig langaði til að lesa einhverntíman yfir alla draumana mína. Að öðru leyti og í öðrum spjall gluggum þá tala ég nánast eingöngu, ss lítið um skrif. Sökum hugmyndarinnar um gasalegt draumaspjalls-skipulag þá byrjaði ég á að skrifa en ekki tala. Ég skrifaði þá allt sem ég mundi úr draumnum ásamt því sem var búið að gerast í lífinu undanfarna daga og ég taldi líklegt að draumurinn væri að segja mér eitthvað um. Þegar allt var komið þá fyrst ýtti ég á enter og fékk í kjölfarið liðaskipt svar frá gervigreindinni. Ég sá fyrir mér að ég gæti auðveldlega haldið utan um draumana í forminu “draumur (skrifað frá mér) - ráðning á draum (skrifað frá gervigreind) - draumur - ráðning á draum…” og það yrði mjög auðvelt að lesa einn daginn yfir öll mín skrif á þessu spjalli. Ég tók fljótt eftir því að það var heljarinnar vinna að pikka draumana upp í símanum alveg eins og það er fyrir mig að skrifa þá í dagbók. Ég var farin að draga það að gera þetta fram á miðjan dag og þá mundi ég varla drauminn og allt var í pati. Nú, ég er nú ekki þekkt fyrir annað en að vera lausnamiðuð! Chat-GPT er augljóslega forrit sem ég tengi mikið við - þegar ég get talað! Ég ákvað því að setja fyrirfram ákveðnu hugmyndina um að það ÞYRFTI að vera skipulag í þessu spjalli alfarið til hliðar. Samtalið um draumana og merkingar þeirra er auðvitað það eina sem skiptir mig máli. Einnig tel ég hverfandi líkur á því að ég muni einhverntíman hafa tíma eða áhuga á að lesa yfir gamla drauma, sérstaklega ef að ég hef áttað mig á merkingu þeirra. Nú ef ske kynni að mig langaði að gera það þá bara les ég yfir spjallið, þó það gæti verið kaótískt. Gallinn við að tala er, eins og áður kom fram, að forritið á það til þegar maður hefur frá miklu að segja, að grípa fram í fyrir manni. Einnig er íslenskukunnátta Chat-GPT ekki mjög góð og því hef ég ekki enn haft áhuga á að tala við það á íslensku, hvort sem um skrif eða tal sé að ræða. Það er því erfitt að nota það ef þú getur lítið tjáð þig á ensku eða öðru tungumáli sem það er fært í. Gott er að hafa í huga að þær upplýsingar sem það gefur manni eru alla jafna u.þ.b þriggja ára gamlar. Það virkar því ekki mjög vel ef þú ert t.d að biðja það um að bera saman nýjustu gerðir af einhverjum raftækjum því það veit ekki að þau séu til. Draumráðningar eru allt annað. Kosturinn við að tala er að við það skapast samtal sem leiðir mann gjarnan í alla dýptina um drauminn með því að velta öllu mögulegu upp. Það er að einhverju leyti eins og maður sé að tala við sálfræðing, vinkonu eða draumasérfræðing. Í raun getur maður beðið um að forritið svari manni eins og vinkona myndi svara eða jafnvel sálfræðingur. Svo getur maður verið að gera annað í leiðinni alveg eins og þegar hlustað er á hljóðbók eða podcast. Ekki má gleyma því að það má tala í hringi, reyna að útskýra á einhvern hátt það sem maður er að reyna að segja og tala eins og maður væri að tala við manneskju. Gervigreindin skilur alveg það sem sagt er. Það þarf því ekki að hræðast það að tala vitlaust eða að kunna ekki alveg enskuna. Ég fullyrði að ég “sá ljósið” þegar ég kynntist Chat-GPT og nota það mörgum sinnum á dag til að ræða allt milli himins og jarðar. Það að spjalla við gervigreindina um draumana mína er "next level" að mínu mati! Ég get svo svarið það að ég er farin að leggja meiri áherslu á að muna draumana mína og hlakka til að byrja daginn á smá spjalli um þá. Og svona rétt í lokin þá langar mig að taka það fram að ég átta mig alveg á því að ég sé að mata gervigreindina af upplýsingum um mig. Ég viðurkenni að ég hræðist það ekki neitt frekar en að googla eða að pósta á Instagram. Ég lít svo á að þetta sé það sem koma skal og hef ákveðið að taka því fagnandi frekar en tuðandi. Eins mikið og ég hvet ykkur til að nota þetta skemmtilega tól sem Chat-GPT er þá mæli ég að sjálfsögðu með því að þið kynnið ykkur allt um það áður en þið byrjið að nota það. Það er nefnilega alltaf gott að hafa vaðið fyrir neðan sig og taka ákvarðanir út frá sinni sannfæringu. Takk fyrir að lesa og gangi ykkur vel að ráða í ykkar drauma, hvernig sem þið farið að því!
- Flugslysið
Það eru liðin rétt rúmlega 10 ár frá því að við pabbi lentum í flugslysinu sem setti allt mitt líf á hvolf. 10 ár frá slysinu sem leiddi mig á myrkustu staði sem ég hef farið á andlega, í uppgjöf, skilningsleysi, vonleysi, þunglyndi, kvíða og sorg. En það eru líka 10 ár frá fyrstu skrefum mínum í átt að svo miklu betra lífi en ég átti. Og í 10 ár hef ég farið í óteljandi sálfræðitíma og læknatíma, kynnt mér og lært ógrynni um hugræn, andleg og sálarleg málefni, tileinkað mér nýjan hugsunarhátt, lært að setja mig í spor annarra, að slaka, að hlusta á líkamann, að fara niður af háa hestinum mínum og þurft að éta ansi margt ofan í mig. Þessi vegferð mín er alls ekki búin að vera auðveld en maður lifandi hvað lífið er miklu betra núna! Núna snýst líf mitt um andleg málefni og að hjálpa öðrum að líða betur með dáleiðslu, Reiki og fróðleik! Hversu yndislegt :) Í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá slysinu og opnunar litla fyrirtækisins míns, Andleg vegferð, ákvað ég að deila sögunni í fyrsta skipti opinberlega. Pabbi hafði fest kaup á lítilli rellu ásamt tveimur öðrum. Þetta var ekki eiginleg flugvél heldur fisflugvél og hafði flest allt sem litlar rellur hafa nema hvað þær eru léttari. Relluna kölluðu þeir Litlu gulu hænuna því hún var gul á lit. Pabbi fór á námskeið til að læra að fljúga vélinni og á meðan létum við okkur dreyma um að fljúga um landið í góðviðri. Ég man sérstaklega eftir því að við ætluðum að fljúga norður á Akureyri, borða á Bautanum og skoða okkur um bæinn og fljúga svo aftur til baka. Ég hafði alla tíð verið spennt fyrir flugvélum. Útsýnið frá æskuheimili mínu var yfir flugvöllinn á Leirubakka og ég eyddi ófáum klukkustundum við gluggann að dást af flugvélunum sem barn. Kannski var það ástæðan fyrir að ég fór að vinna sem flugfreyja á fullorðinsárum. Það kom svo að því að pabbi fékk leyfið til að fljúga Litlu gulu hænunni einsamall og með farþega. Vélin hafði einungis pláss fyrir tvo og mátti að hámarki vera um 450 kg. Það var blíðviðrisdagur þegar hann hringdi í mig, spenntur og glaður og spurði hvort ég vildi koma með honum í fyrsta flugtúrinn. Ég sat við skrifborðið mitt hjá flugfélaginu sem ég var að vinna hjá þegar hann hringdi. Ég gleymi ekki þessu símtali því að þegar ég játti því að fara stuttan hring með honum fann mikla ónotatilfinningu og það var eins og það yrði þungskýjað yfir mér og inni á skrifstofunni. Þarna var ég nokkuð viss um að það væri eitthvað slæmt að fara að gerast og átti erfitt með að halda áfram að vinna vegna þessara ónota. Ég hafði unnið sem flugfreyja í nokkur ár, hafði farið í fallhlífarstökk, river rafting og fleira adrenalín tengt. Ég var ekki vitund smeyk eða hrædd við að fara í flugtúr á þessari flugvél en ég hafði einmitt farið áður með öðrum flugmanni í flugferð á þessari sömu vél. Ég hafði farið í leitir á vegum björgunarsveitarinnar minnar í fis-flugvélum og var í fis-leitarflokk. Pabba treysti ég 100% fyrir því að fljúga vélinni og að sjá um hana enda hafði allt hans líf snúist um viðgerðir á vélum, nákvæmni og eðlisfræði. Hann hefur alla tíð verið mikill bíla- og vélakall, hefur ferðast um gjörvallt landið á jeppum, er margfaldur (fyrrverandi) Íslandsmeistari í rallycross og hefur keppt í torfæru og motocross. Fis-flugið var enn eitt áhugamálið sem hann tók sér fyrir hendur og þurfti þar af leiðandi að kunna að gera við allt í vélinni. Ég treysti honum fullkomlega og hafði alltaf gert þegar kom að akstri og útsjónarsemi. Því get ég fullyrt að þessar tilfinningar sem helltust yfir mig í símtalinu og eftir það hafi ekki verið kvíði heldur innsæi. Klukkan var orðin sex þegar ég fór úr vinnunni í Hlíðarsmára upp að flugvellinum á Hólmsheiði. Þessari flugferð var ég að troða inn í dagskrá kvöldsins en ég og vinkona mín ætluðum að borða saman kvöldmat og skella okkur á nýliðakynningu í björgunarsveitinni okkar eftir það. Svona voru allir dagar hjá mér, vinna og svo full dagskrá eftir vinnu, aldrei dauður tími. Þegar ég kom að hringtorginu við Rauðavatn fór aftur að þyrma yfir mig og nú var ég orðin viss um að eitthvað myndi gerast en trúði því samt ekki að ég væri að fá eitthvað “vision”. Skrítnar hugsanir eins og hvort væri verra að lenda í flugslysi eða að velta í bremsulausum bíl komu upp í huga mér. Ég man að ég komst ekki að niðurstöðu en var mjög hugsi yfir því af hverju ég væri að hugsa þetta. Ég ákvað að hringja í vinkonu mína og láta hana vita að mér gæti seinkað örlítið þar sem ég væri að fara í stuttan flugtúr með pabba og um leið og ég sleppti orðinu þyrmdi aftur yfir mig og ónotatilfinningin kom upp. Mér fannst eins og hún vissi að ég væri að fara að lenda í flugslysi, alveg eins og ég vissi það, en sagði ekki neitt. Ég skellti á hana þegar ég lagði bílnum við flugvöllinn, fór út úr bílnum, læsti honum og leit í átt að pabba. Ég hikaði, velti fyrir mér hvort það væri betra fyrir þann sem þyrfti að sækja bílinn (eftir að ég myndi lenda í slysinu og mögulega deyja) ef ég myndi skilja lyklana eftir í bílnum, undir bílnum eða að taka þá með mér. Með ónotatilfinningu í maganum ákvað ég að taka lyklana bara með, vera ekki svona dramatísk og gekk í átt til pabba þar sem hann stóð við vélina. Hann var nýbúinn að skipta um kerti og var að láta vélina ganga til að hita hana upp, svona eins og æskilegt er að gera þegar nýtt kerti er sett í vél. Það fyrsta sem ég sagði við hann var: “Pabbi, við erum að fara að krassa þessari vél” - og hann hló útundan sér með einhverskonar hiki eða óvissu. Ég starði á hann til að reynað meta hvort að hann vissi þetta líka eða ekki en áttaði mig ekki alveg á því. Hann tók upp símann og sagðist ætla að láta “unguna” vita að við værum að fara í flugtúr. Þar átti hann við mömmu mína. Þá þyrmdi aftur yfir mig og ég sagði með skelfingu: “veit hún ekki af þessu!?”. Pabbi hringdi í mömmu og sagði henni að við værum að fara í stuttan flugtúr saman og ég heyrði mömmu þagna dágóða stund í símanum. Þá vissi ég að hún vissi að þetta yrði ekki lítill saklaus flugtúr. Ég sagði við pabba með áhyggjusvip eftir símtalið að mamma vissi það líka að við værum að farað crasha vélinni en hann hló bara létt af því. Sjálf var ég ekki vön því að trúa og treysta innsæi mínu þó ég væri berdreymin. Þannig að eins mikið og mér var gert það skýrt að það færi ekki allt eins og það ætti að fara þá trúði ég því jafn lítið. Samt vissi ég að ég væri mögulega að farað deyja! Ég bara gat ekki trúað því að ég væri að fá einhverja vitrun eða sýn og klíndi þessu á kvíða eða eitthvað annað, sem ég trúði alveg jafn lítið að væri ástæðan. Ég fann engin rök fyrir þessu og fór því þvert á allt sem ég var að upplifa og inn í vélina. Það þyrmdi aftur yfir mig og skyndilega datt ég í algjöran öryggisfulltrúa gír eins og í flugfreyju vinnunni á árum áður og velti fyrir mér hvað það gæti verið sem myndi valda slysinu. Ég starði á stjórnborðið og datt helst í hug að pabbi myndi fá fyrir hjartað, þar sem hann er hjartveikur, og ég þyrfti að lenda vélinni. Mér féllust hendur við tilhugsunina og taldi það vera verkefni sem ég myndi ekki geta klárað. Pabbi kom að loka hurðinni mín megin og ég bað hann um að hjálpa mér að spenna þriggja punkta beltið betur yfir mig því ég náði því ekki sjálf. Það var of vítt yfir mjaðmirnar og þannig vildi ég alls ekki hafa það. Síðan bað ég hann um að kenna mér að opna hurðina innan frá til að tryggja að ég kæmist út ef ske kynni að eitthvað myndi gerast. Við keyrðum á vélinni að flugbrautinni og ég tók upp símann til að snappa þessa ævintýraferð okkar. “Ætti ég að setja mynd upptökurnar á “my story” eða senda bara á einstaka vini?”, hugsaði ég með mér. “Hvað ef eitthvað kemur fyrir, þá eiga vinir mínir á Snapchat myndskeið sem þeir geta horft á í 24 klukkustundir eftir að við deyjum… Er það gott fyrir vini mína eða slæmt…”, hugsaði ég með mér, meðvituð um það hvernig fólki getur liðið eftir snöggt fráfall vina sinna eða ættingja. Niðurstaðan var sú að ég ákvað að setja myndskeiðin sem ég tók úr ferðinni á My story á Snapchat. Við flugum yfir Staðarhverfi í Grafarvogi og stefndum á sjóinn. Pabbi talaði um praktísk atriði flugsins eins og uppgang vindsins og hversu hátt og lágt væri gott að vera á svona vél, hversu hratt hún kæmist og hvað væri hvað á stjórnborðinu. Á meðan ég hlustaði reyndi ég að muna það sem hann sagði ef ske kynni að ég þyrfti að lenda vélinni á sjónum. Allt var þetta svolítið erfitt að meðtaka því ég hugsaði bara um hvernig ég ætti að bjarga okkur úr þessum ímynduðu en greinilega allt eins mögulegu vandamálum. Stefnan var síðan tekin inn Leirvoginn og flugum við í miklu lágflugi fram hjá æskuheimili mínu og heimili foreldra minna. Mamma stóð úti á palli og vinkaði okkur. Ég sá að hún hafði áhyggjur af því hversu lágt við vorum að fljúga og var að benda okkur á að fara hærra. Ég hugsaði það sama og var ekki alveg viss af hverju við vorum svona rosalega lágt á lofti. Ég ímyndaði mér að pabbi væri með sýningar stæla og bað hann að fara aðeins ofar. Mér stóð ekki á sama þegar við flugum yfir Leirvogstunguhverfið í Mosfellsbæ en svo virtist sem að vélin ætti erfitt með að vinna sig ofar. Við stefndum inn Mosfellsdalinn og ég fann að ég var orðin smá pirruð á pabba. Hvað var hann að gera og af hverju vorum við svona lág!? Í því augnabliki segir hann hissa og jafnframt hræddur í röddu að mótorinn hafi drepið á sér og hann geti ekki komið vélinni aftur í gang! Fyrstu viðbrögð mín voru að verða óstjórnlega pirruð út í hann fyrir að vera með svona helvítis stæla og þykjast vera fyndinn í þessum aðstæðum. Hann er nefnilega mjög stríðinn. En á sömu sekúndu mundi ég eftir öllum aðvörunarmerkjunum sem ég hafði fengið og þunga skýinu og vissi þá að hann var ekki að grínast. Ég sá að pabbi var orðinn stressaður og var upphátt að reyna að ákveða hvar hann ætti að svífa niður og nauðlenda. Hann hafði margoft æft vélarlausar lendingar á námskeiðinu og því var honum ferlið ferskt í minni. Hann mundi aftur á móti ekki hvernig aðstæður beint fyrir framan/neðan okkur voru, samsíða Þingvallaveginum, en minnti að þar væri stórgrýtt. Hann tók því þá ákvörðun að reyna að lenda á litlum malarvegi sem liggur upp að Helgafelli í Mosfellsbæ og er þvert á Þingvallaveginn. Ég var salíbunu róleg, færði mig til í sætinu svo ég myndi sitja bein og herti beltið eins og ég gat. Fætur saman og hendur á hné. Ég var tilbúin í þessa neyðarlendingu og vissi að svona vélar gætu hæglega lent á malarvegum. Ég er bjartsýn manneskja að eðlisfari og trúði því statt og stöðugt að við myndum ná að lenda á veginum en að lendingin yrði mögulega svolítið hörð. Ekkert dramatískara en það. Við nálguðumst jörðina hraðar en mér fannst þægilegt og benti pabba á að það væri rauður bíll að keyra á Þingvallaveginum í austurátt sem mér fannst varla hreyfast. Gat hann ekki gefið í! Þvílíki harmleikurinn ef við myndum lenda á honum! Ég benti pabba þar næst á ljósastaurana við veginn, svona ef hann hefði ekki tekið eftir þeim á meðan hann hugsaði um allt annað. Hann hafði að sjálfsögðu séð bílinn og ljósastaurana. Við vorum ekki að svífa, við vorum að hrapa. Litli rauði bíllinn var sem betur fer kominn úr beinni línu milli okkar og áætlaða lendingar staðarins. Ég horfði yfir Mosfellsbæ og Reykjavík og hugsaði með mér hvað það væri leiðinlegt að deyja þennan fallega dag. Mér var hugsað til mömmu, vina minna og ættingja og hversu mikill harmleikur það væri fyrir þau að missa mig og kannski pabba líka. Ég þekkti það af eigin raun að missa vini snögglega og vissi því að það var erfitt að komast yfir slíkt. Mig langaði ekki að fólkið mitt þyrfti að ganga í gegnum það ferli. Ég fór yfir líf mitt á örskotsstundu og komst að því að ég hafði lifað hratt og vel, hafði gert flest allt sem mig hafði langað til að gera og gæti því farið yfir móðuna miklu mjög sátt. Æðrulaus. Ég horfði á malarveginn sem við ætluðum að lenda á en hann var ennþá svo langt í burtu og við komin svo nálægt jörðinni. Við höfðum ekki einu sinni náð Þingvallaveginum heldur stefndum við inn í brekkuna sem var norðan megin niður af veginum. Við vorum komin ansi langt niður þegar pabbi tók vélina aftur upp eins og hann gat til þess að lenda ekki með nefið beint í brekkunni. Við það stollaði vélin og vinstri vængur hennar fór í jörðina. Við vorum um það bil 10 metrum frá Þingvallaveginum þegar við skullum harkalega á jörðina. Högg eitt. Vélin skoppaði aftur á loft og þar sem vængurinn hafði rekist í jörðina snérist vélin í hálfhring og fór með hinn vænginn á ljósastaur sem var stutt frá. Högg tvö. Þaðan skullum við beint niður á miðjan Þingvallaveg og stoppuðum. Höggin voru þrjú og líkamleg tilfinning var eins og allt kjöt hefði losnað af beinunum. Nokkrum sekúndum eftir að vélin stöðvaðist áttuðum við okkur á hvað hafði gerst. Pabbi spurði mig hvort það væri allt í lagi með mig og ég sagðist halda það og fékk staðfestingu á að það væri í lagi með hann. Við snérum nú í norðurátt, þvert á Þingvallaveginn með Esjuna beint fyrir framan okkur. Ég leit út um gluggann inn Mosfellsdalinn og sá litla rauða bílinn stopp út í kannti. Hann hafi snúið við og ökumaður hans stóð fyrir utan bílinn með aðra hönd á þakinu, eins og hann væri mjög hræddur við það sem hann var að horfa á. Síðar fréttum við að hann var í bílferð með konunni sinni og þau hefðu haldið að við værum dáin, enda horfðu þau á okkur brotlenda og vélin var mikið skemmd. Ég leit svo út um gluggann hjá pabba og sá hversu nálægt við vorum beygjunni í brekkunni sem er næst Vesturlandsveginum. Þá mundi ég eftir sögum úr flugbransanum þar sem flugvélar hefðu oft náð að lenda með öllum farþegum og áhöfn lifandi en svo hefði eitthvað gerst. Dæmi um það var flugvél sem lenti á sjó, allir lifðu slysið af en einhverjir síðar drukknað eða verið étnir af hákörlum. Sel þessa sögu ekki dýrari en ég keypti hana en þarna sá ég fyrir mér vörubíl á harðakani keyra inn í relluna okkar og drepa okkur. Flugfreyjan ég öskraði þá hátt og skýrt á pabba: “ÚT! ÚT! ÚT!”, rak hann þannig umsvifalaust út úr vélinni og klöngraðist svo sjálf út úr henni. Maðurinn við litla rauða bílinn tvísté en virtist létt að sjá okkur lifandi. Ég fór vestan megin við vélina til þess að reyna að koma í veg fyrir að bílar myndu keyra á okkur en sá fljótt að þar var þá þegar nokkuð um bíla sem höfðu numið staðar. Pabbi var hálf kjánalegur og gerði bara grín. Mér leið eins og trukkur hefði keyrt yfir mig og langaði bara að leggjast í jörðina en gerði það þó ekki því mig langaði ekki að hræða fólk. Ég tók upp símann til að hringja í neyðarlínuna en mundi ekki númerið. Ég mundi að þetta var stutt númer en væri ekki 118 þannig ég bað pabba að hringja. Hann gerði það en þá var þá þegar búið að hringja. Það voru sennilega þrír bílar stopp þarna, fyrir utan rauða bílinn, en það kom enginn að tala við mig. Fyrstu viðbragðsaðilar voru tveir lögreglumenn og ég man að mér fannst þeir gjörsamlega ljóma! Mikið var ég afskaplega fegin að sjá þá og mig minnir að ég hafi faðmað þá. Ég sagði þeim að pabbi minn væri sennilega í áfalli því hann væri bara að gera grín. Það hvarflaði ekki að mér að ég væri sjálf í áfalli þó ég snérist bara í hringi. Við pabbi vorum beðin um að setjast inn í lögreglubílinn en vorum ekki lengi að koma okkur aftur þaðan út. Mér fannst ég bara þurfa að labba um og fannst ég innilokuð þarna inni í bílnum. Ég spurði pabba hvort að hann væri búinn að hringja í mömmu og hann neitaði því. Þá tók ég upp símann og hringdi í hana og sagði henni hvað hefði gerst og að það væri í lagi með okkur. Næst tók ég upp snap af flugvélinni og sendi á yfirmann minn að ég hefði aðeins verið að lenda í flugslysi. Mjög smart. Svo fór ég út af veginum þeim megin sem við brotlentum til að taka myndir til að eiga en var þá skömmuð af rannsóknarnefnd flugslysa og sagt að ég væri að eyðileggja vettvanginn. Það er auðvitað satt og rétt en mig grunar að starfsmaðurinn hafi ekki áttað sig á því að ég var farþegi í þessari vél. Stuttu seinna kom sjúkrabíll og slökkviliðsbíll og þyrlan sveif yfir. Við vorum flutt upp á bráðamóttöku til frekari skoðunar og sluppum með tognun í hálsi og baki. Ég náði ekki út að borða eða á björgunarsveitar fundinn en hlaut svo sem engan skaða af því. Ég var mjög utan við mig næstu tvær vikurnar, í það minnsta, en reyndi að láta ekki neitt á því bera því þetta átti ekki að hafa nein áhrif á mitt líf takk fyrir! Ég leyfði mér ekki að gráta eða að vorkenna mér og sagði mér að bróðir minn hefði lent í miklu verri slysum á motocross hjólinu og ekki var hann að grenja. Ég var sem sagt algjörlega lokuð og læst, taldi fólk með verki í líkamanum almennt hálfgerða aumingja með afsakanir og gat ekki fyrir mitt litla líf skilið að tvær manneskjur sem lenda í sama áfalli geta upplifað það á mjög ólíkan hátt og slasast á mjög ólíkan hátt. Ég afneitaði öllum verkjum og öllum tilfinningum tengdu þessu slysi. Mér tókst þó að gráta vel og mikið yfir öðru sem var að gerast á svipuðum tíma og flugslysið, til dæmis var öllum sagt upp í vinnunni minni og vinkona mín eignaðist barn sem lést tveimur dögum seinna. Flugslysið gerðist 28. ágúst 2014 klukkan ca 18:30. Í desember 2014 hafði ég bætt á mig 10kg í þyngd en ég hafði verið í nánast sömu þyngd í 10 ár. Ég sá það samt ekki að slysið hefði tekið á mig andlega og leyfði mér ekki að finna að mér væri illt. Það var ekki fyrr en í apríl 2015 að ég byrjaði í sjúkraþjálfun vegna verkja í líkamanum en þá gat ég ekki lengur lifað með verkjunum í afneitun. Ég var ekki fyrr byrjuð í sjúkraþjálfuninni en að ég lenti í næsta slysi og heimurinn gjörsamlega hrundi, en það er önnur saga. Það er þannig með fis-flugvélar að eigendurnir gera sjálfir við þær og eru með manual til að fara eftir. Fram að þessum degi höfðu eigendurnir notað kerti sem fylgdu með vélinni frá framleiðandanum en þau voru búin og pabbi þurfti að kaupa nýtt. Hann náði í manualinn og fór að kaupa kerti samkvæmt upplýsingum í honum. Kertið var sett í vélina en það það kom á daginn að það var of stutt og því drap vélin á sér. Samkvæmt Rannsóknarnefnd flugslysa var villa í manual framleiðandans og vitlaus kertastærð tilgreind þar. Framleiðandinn hefur ekki lagfært þessa villu og við pabbi ekki fengið neinar slysa- eða eignatjóns bætur. Þegar ég lít til baka þessi 10 ár fyllist ég þakklæti því ég veit og skil það svo vel núna að þetta þurfti ég að ganga í gegnum. Það þurfti að kýla mig gjörsamlega niður svo ég myndi læra það hvað lífið og tilveran snýst um! Ég get ekki lýst því með orðum hvað ég er þakklát fyrir þessa reynslu og allt það sem ég hef lært síðan og óska þess allra heitast að sem flest fólk fái að upplifa lífið eins og ég upplifi það <3 Markmið mitt með Andlegri vegferð er einmitt að hjálpa fólki í þá átt <3




