top of page
Search

Gervigreindin og "dream journaling"

  • Writer: Dagbjört Þórðardóttir
    Dagbjört Þórðardóttir
  • Nov 27, 2024
  • 6 min read
ree


Við mamma erum mjög berdreymnar. Við tölum mikið saman um draumana okkar og spáum í merkingu þeirra með aðstoð draumaráðningabóka. Frá því að ég man eftir mér höfum við talað um að fara nú að skrifa draumana okkar niður. Það sem vakti fyrir okkur varðandi það var að eiga þá sem sönnun fyrir því að við værum berdreymnar. Sem sagt að ef það sem við dreymdum fyrir myndi með sanni gerast þá gætum við sýnt fram á að við hefðum vitað þetta. Eitthvað í þá áttina. Eða það var í það minnsta það sem ég hélt sem barn að "skrifa draumana sína niður" væri.


En það er nú þannig að þegar draumar eru skrifaðir niður þá erum við að einhverju leyti að tengjast undirvitund okkar og á meðan skrifum stendur getum við tekið eftir því að tilfinningar okkar breytast. Það gæti verið í formi þess að "vita" svarið eða að finna það innra með okkur. Það er auðvitað hægt að nota draumaráðningabækur til að átta sig betur á skýrum merkjum draumanna og túlka þau svo út frá því sem er að gerast í lífi manns á þeim tíma. Dæmi um skýr merki eru sterkir litir sem taka mikið pláss í draumnum, nöfn, hlutir og dýr. Það eru mörg ár síðan ég áttaði mig á því að það að skrifa draumana sína niður væri miklu dýpra en ég hélt sem barn en frá þeirri uppgötvun hef ég reynt margt til að fá mig í að skrifa. Þrátt fyrir áhugann og viljann þá hefur það hreinlega ekki gengið fyrr en núna nýlega.



Ástæða þessa draumarants er sú að ég var að uppgötva nýja leið til að skrásetja draumana mína. Þetta er leið sem hentar mér afar vel því ég þarf ekki að setjast niður og vera kyrr á meðan ég hugsa um hvað ég var að dreyma á meðan ég skrifa það niður og reyni að túlka merkinguna í leiðinni. Mig langar að deila þessari uppljómun með ykkur en það er að nota gervigreindina, Chat-GPT. 


Það sem ég geri þegar ég nota forritið er að ég bý til sér spjall fyrir hvert málefni, td er eitt spjall fyrir drauma. Þegar mig langar að ráða í draum opna ég “drauma spjallið”. Ástæðan fyrir því að ég er með sérstakan spjall glugga fyrir draumráðningar er sú að  gervigreindin “man” allt sem er innan hvers spjalls. Þannig “man” hún aðra drauma sem ég hef sagt henni frá og gæti tekið eftir mynstri í draumunum og því um líkt. Aftur á móti, ef ég myndi alltaf ræða hvern draum í nýju spjalli, þá væri alltaf eins og að gervigreindin væri að kynnast mér upp á nýtt.


Það skemmtilega við Chat-GPT er að þar er hægt að bæði skrifa niður drauminn sinn og segja frá honum í tali. Þegar maður kýs að tala í stað þess að skrifa þá birtist það sem sagt var í textaformi í spjall glugganum. Gervigreindin svarar manni í töluðu formi þegar maður talar sjálfur og birtist svarið þá einnig sem texti inni í spjall glugganum. Það er því alltaf hægt að lesa yfir spjallið, hvort sem maður skrifaði drauminn sinn inn eða talaði. Þegar ég skrifa eða tala draumana mína inn þá segi ég líka frá því sem hefur verið að gerast í lífi mínu undanfarna daga. Þannig fær gervigreindin meiri vitund um það sem er að gerast í lífi mínu og getur betur hjálpað mér að lesa í draumana. 



Þó að mér finnist afskaplega gaman að tala þá vildi ég í byrjun skrifa draumana niður. Það var vegna þess að þegar maður talar þá á forritið það til að stöðva mann í miðju kafi og koma með svar. Það urðu því meira eins og samræður. Mér fannst það upphaflega hljóma eins og of mikið skipulagsleysi svona ef mig langaði til að lesa einhverntíman yfir alla draumana mína. Að öðru leyti og í öðrum spjall gluggum þá tala ég nánast eingöngu, ss lítið um skrif. Sökum hugmyndarinnar um gasalegt draumaspjalls-skipulag þá byrjaði ég á að skrifa en ekki tala. Ég skrifaði þá allt sem ég mundi úr draumnum ásamt því sem var búið að gerast í lífinu undanfarna daga og ég taldi líklegt að draumurinn væri að segja mér eitthvað um. Þegar allt var komið þá fyrst ýtti ég á enter og fékk í kjölfarið liðaskipt svar frá gervigreindinni. Ég sá fyrir mér að ég gæti auðveldlega haldið utan um draumana í forminu “draumur (skrifað frá mér) - ráðning á draum (skrifað frá gervigreind) - draumur - ráðning á draum…” og það yrði mjög auðvelt að lesa einn daginn yfir öll mín skrif á þessu spjalli. Ég tók fljótt eftir því að það var heljarinnar vinna að pikka draumana upp í símanum alveg eins og það er fyrir mig að skrifa þá í dagbók. Ég var farin að draga það að gera þetta fram á miðjan dag og þá mundi ég varla drauminn og allt var í pati.


Nú, ég er nú ekki þekkt fyrir annað en að vera lausnamiðuð! Chat-GPT er augljóslega forrit sem ég tengi mikið við - þegar ég get talað! Ég ákvað því að setja fyrirfram ákveðnu hugmyndina um að það ÞYRFTI að vera skipulag í þessu spjalli alfarið til hliðar. Samtalið um draumana og merkingar þeirra er auðvitað það eina sem skiptir mig máli. Einnig tel ég hverfandi líkur á því að ég muni einhverntíman hafa tíma eða áhuga á að lesa yfir gamla drauma, sérstaklega ef að ég hef áttað mig á merkingu þeirra. Nú ef ske kynni að mig langaði að gera það þá bara les ég yfir spjallið, þó það gæti verið kaótískt.


Gallinn við að tala er, eins og áður kom fram, að forritið á það til þegar maður hefur frá miklu að segja, að grípa fram í fyrir manni. Einnig er íslenskukunnátta Chat-GPT ekki mjög góð og því hef ég ekki enn haft áhuga á að tala við það á íslensku, hvort sem um skrif eða tal sé að ræða. Það er því erfitt að nota það ef þú getur lítið tjáð þig á ensku eða öðru tungumáli sem það er fært í. Gott er að hafa í huga að þær upplýsingar sem það gefur manni eru alla jafna u.þ.b þriggja ára gamlar. Það virkar því ekki mjög vel ef þú ert t.d að biðja það um að bera saman nýjustu gerðir af einhverjum raftækjum því það veit ekki að þau séu til. Draumráðningar eru allt annað.


Kosturinn við að tala er að við það skapast samtal sem leiðir mann gjarnan í alla dýptina um drauminn með því að velta öllu mögulegu upp. Það er að einhverju leyti eins og maður sé að tala við sálfræðing, vinkonu eða draumasérfræðing. Í raun getur maður beðið um að forritið svari manni eins og vinkona myndi svara eða jafnvel sálfræðingur. Svo getur maður verið að gera annað í leiðinni alveg eins og þegar hlustað er á hljóðbók eða podcast. Ekki má gleyma því að það má tala í hringi, reyna að útskýra á einhvern hátt það sem maður er að reyna að segja og tala eins og maður væri að tala við manneskju. Gervigreindin skilur alveg það sem sagt er. Það þarf því ekki að hræðast það að tala vitlaust eða að kunna ekki alveg enskuna.



Ég fullyrði að ég “sá ljósið” þegar ég kynntist Chat-GPT og nota það mörgum sinnum á dag til að ræða allt milli himins og jarðar. Það að spjalla við gervigreindina um draumana mína er "next level" að mínu mati! Ég get svo svarið það að ég er farin að leggja meiri áherslu á að muna draumana mína og hlakka til að byrja daginn á smá spjalli um þá.


Og svona rétt í lokin þá langar mig að taka það fram að ég átta mig alveg á því að ég sé að mata gervigreindina af upplýsingum um mig. Ég viðurkenni að ég hræðist það ekki neitt frekar en að googla eða að pósta á Instagram. Ég lít svo á að þetta sé það sem koma skal og hef ákveðið að taka því fagnandi frekar en tuðandi. Eins mikið og ég hvet ykkur til að nota þetta skemmtilega tól sem Chat-GPT er þá mæli ég að sjálfsögðu með því að þið kynnið ykkur allt um það áður en þið byrjið að nota það. Það er nefnilega alltaf gott að hafa vaðið fyrir neðan sig og taka ákvarðanir út frá sinni sannfæringu.


Takk fyrir að lesa og gangi ykkur vel að ráða í ykkar drauma, hvernig sem þið farið að því!




 
 
 

Comments


bottom of page