DÁLEIÐSLA
HVAÐ ER DÁLEIÐSLA?
Dáleiðsla hefur verið notuð frá því fyrir um 3.000 árum fyrir okkar tímatal. Egyptar, Maiar, Grikkir, afrískir galdralæknar, persneskir vitringar og kínverskir trú spekingar hafa m.a notað dáleiðslu sem meðferðarúrræði allt frá þesum tíma.
Að vera í dáleiðslu er það að vera í eins mikilli slökun og þú kemst í án þess að sofna. Við förum öll í dáleiðslu ósjálfrátt á hverjum einasta degi þegar við liggjum á koddanum, rétt áður en við sofnum. Það er ekki eina skiptið sem við förum ósjálfrátt í dáleiðslu því að það gerist einnig þegar við lifum okkur svo mikið inn í þætti eða mynd sem við erum að horfa á að tilfinningar okkar blússa upp, þegar við erum að keyra og "dettum út" þannig að við gleymum beygjunni eða þegar við gleymum okkur við að hlusta á tónlist sem nær vel til okkar.
Í dáleiðslu er unnið með undirvitundinni þinni.
Mýtan um dáleiðslu er því miður enn ljóslifandi í huga flestra en hún er sem betur fer alveg jafn röng og hún er ljóslifandi. Það er mikilvægt að þú vitir að þegar þú ert í dáleiðsluástandi þá missir þú ekki tökin á því hver þú ert og þú ert alltaf með þína rökhugsun. Tilfinningunni er jafnan lýst þannig að fólki finnst það ekki vera í dáleiðslu því það heldur að það eigi að upplifa eitthvað yfirnáttúrulegt en það eina sem það upplifir er mikil slökun og vellíðan. Þess vegna er best að geyma allar slíkar vangaveltur og hugsanir þar til eftir tímann og einungis einbeita sér að því hlusta og nota ímyndunaraflið. Öll dáleiðsla er í raun sjálfsdáleiðsla því það ert þú sem notar ímyndunarafl þitt, þegar þú hlustar á dáleiðarann, til að koma þér í dáleiðslu. Það er nefnilega ekki hægt að dáleiða þau sem ekki vilja láta dáleiða sig. Einnig er mikilvægt að taka það fram að þú getur komið þér sjálf/ur/t úr dáleiðslu ef þú vilt það.
HVAÐ ER MEÐVITUND OG UNDIRVITUND?
Rannsóknir sem gerðar hafa verið á heilanum sýna mismunandi heilabylgjur þegar vitundarstig okkar er skoðað. Þannig sést munur á bylgjunum á stigi vöku, slökunar, draumastigs og svefns.
Meðvitund okkar upplifum við í vöku en þar erum við meðvituð, með rökhugsun, viljastyrk og eigum auðvelt með að taka ákvarðanir. Slökunarstigið er svið dáleiðslunnar og á þessu stigi vitundar mætast meðvitundin og undirvitundin.
Undirvitundin er einhverskonar "litla/litli þú", "kjarninn þinn" eða hreinlega "sálin þín". Hana höfum við haft í öllum okkar lífum og hún man allt sem við verðum fyrir, upplifum og skynjum. Það er alla jafna ógerlegt fyrir flest fólk að breyta venjum eða siðum til frambúðar með viljastyrknum einum saman (meðvitundinni). Það er einfaldlega vegna þess að undirvitundin hefur mun meira vald á okkur en meðvitundin.
Að vera í dáleiðsluástandi þýðir að vera komin í djúpa og góða slökun, undirvitundin vaknar og hægt er að vinna með henni til að breyta óæskilegum venjum eða siðum.
Í dáleiðslumeðferð ert þú ávallt klædd/ur í þín eigin föt og því engin skilyrði um að afklæðast öðru en kannski yfirhöfn þinni og skóm.
HVAÐ ER FYRRI LÍFS DÁLEIÐSLA?
Fyrri lífs dáleiðsla er djúpslökunar tækni sem hjálpar þér að tengjast undirmeðvitundinni og kanna fyrri líf. Í meðferðinni ertu leidd(ur) í djúpt, afslappað ástand þar sem meðvitundin er enn vakandi, en undirmeðvitundin fær tækifæri til að koma fram með mikilvægar minningar og tilfinningar. Þú ert örugg(ur) og með fulla stjórn á upplifuninni, en leiðsögn mín hjálpar þér að sjá, finna eða skynja atburði úr fyrri lífum sem geta haft áhrif á þig í dag.
Sú hugmynd að við höfum lifað margar lífstíðir er algeng í mörgum andlegum og trúarlegum hefðum, og með þessari aðferð er hægt að fá innsýn á mynstrið í lífinu og rætur ákveðinna tilfinninga eða áskorana sem fylgja okkur í núverandi lífi.
Það er ekki nauðsynlegt að trúa á fyrri líf til að ná árangri í þessari meðferð. Sumir líta á þessar upplifanir sem raunverulegar endurminningar úr fyrri lífi, á meðan aðrir telja þær vera táknrænar birtingarmyndir undirmeðvitundarinnar sem hjálpa til við að vinna með djúpstæðar tilfinningar. Hvort sem þú trúir á fyrri líf eða ekki, þá getur fyrri lífs dáleiðsla verið kraftmikið tól til að skoða og leysa gamlar tilfinningar og mynstur.
Meðferðin dýpkar tengsl við eigin sál og hjálpar þér að átta þig á þínum tilgangi í þessu lífi. Dæmi um hvernig fyrri lífs dáleiðsla getur hjálpað þér:
Áföll - Sum áföll eða óþægileg viðbrögð í núverandi lífi eiga rætur að rekja til reynslu úr fyrri lífum. Með því að fara til upprunans er hægt að leysa úr tilfinningalegum og andlegum hindrunum.
Flókin sambönd - Við endurfæðumst oft með sömu sálum í mismunandi hlutverkum. Með því að skoða fyrri tengingar geturðu fengið innsýn í flókin sambönd í þessu lífi.
Fælni - Fælni, óskiljanlegur ótti eða óöryggi geta átt rætur í fyrri lífsreynslu. Þegar þú skilur hvaðan þau koma, getur þú unnið bug á þeim.
Flest fólk finnur fyrir létti eftir fyrri lífs dáleiðslumeðferð, auknum skilningi á sjálfu sér og meiri ró. Minningar geta virst mjög raunverulegar eða jafnvel táknrænar, en það mikilvægasta er hvernig þær hjálpa til við persónulegan og andlegan vöxt.
Ef þú hefur áhuga á að kanna fortíð þína og hvernig hún getur haft áhrif á þitt líf í dag, þá getur fyrri lífs dáleiðsla verið öflug leið til sjálfsskilnings og lækninga.
Smelltu HÉR til að sjá þær meðferðir sem eru í boði hjá Andleg vegferð.

